Blikksmíði er löggild iðngrein. Blikksmiðir vinna bæði innan- og utandyra.
Í blikksmiðju smíða þeir t.d. alla hluti loftræstikerfis og setja síðan upp á byggingarstað.
Utanhúss vinna þeir við að leggja klæðningar á þök og veggi, auk þess að smíða og ganga frá þakköntum og öðrum vandasömum byggingarhlutum. Þeir nota flóknar skurðar-, beygju- og völsunarvélar með tölvustýringum sem oft taka á móti teikningum úr tölvu.

Blikksmiðir kunna skil á virkni tölvustýrðs búnaðar í loftræstikerfum og staðsetja skynjara og nema fyrir hita- og rakastig á réttum stöðum. Ný tækni gerir þær kröfur til blikksmiða að þeir ráði yfir haldgóðri þekkingu á tölvum, auk góðrar þekkingar á málmum, vélum og verkfærum sem þeir vinna með.

UM NÁMIÐ
Nemandi í blikksmíði byrjar á því að taka 4 annir í skóla, samtals 81 einingu, sem er sameiginlegur fyrrihluti öllum þeim sem ætla í málmiðnanám. Hafa ber í huga að sumir skólar kenna bara fyrrihluta námsins. Að þessu loknu hefst sérnám í blikksmíði sem tekur 2 annir, samtals um 40 einingar. Nám í blikksmíði tekur því 4 ár, þar af eru 6 annir í skóla og 15 mánuðir í starfsþjálfun hjá fyrirtæki í faginu. Það er alls um 120 einingar og lýkur með sveinsprófi og fær sá sem stenst það heimild til þess að bera starfsheitið blikksmiður.

HELSTU NÁMSGREINAR
Það sem kennt er í skólanum eru sérgreinar eins og grunnteikning, efnisfræði, handavinna, rennismíði, plötuvinna, aflvélafræði, iðnteikning, tölvuteikning, umhverfisfræði, stýritækni, tölvustýrðar vélar og loftræsingar. Auk sérgreina eru almennar bóklegar greinar eins og íslenska, enska, danska og stærðfræði. Verkleg þjálfun og tilsögn fer fram hjá fyrirtæki í faginu auk þeirrar verklegu kennslu sem fer fram í skólanum. Námstími er fjögur ár.

FRAMHALDSNÁM
Margir möguleikar eru á framhaldsnámi að loknu sveinsprófi t.d. meistaranámi, sem veitir réttindi til að reka eigið fyrirtæki og að taka nema á námssamning. Einnig er hægt að læra iðnfræði eða taka tæknistúdentspróf og hefja nám í tækni- eða verkfræði við háskóla hérlendis eða erlendis að uppfylltum inntökuskilyrðum viðkomandi skóla.

Blikksmíði er löggilt iðngrein og er kennd í Borgarholtskóla og í Verkmenntaskólanum á Akureyri.