• video

Heimur blikksins

Félag blikksmiðjueigenda hefur látið gera vandað 12 mínútna myndband þar sem kynnt eru viðfangsefni blikksmiða, vinnuumhverfi og nám í greininni. Markmiðið er að fá fleiri til að læra blikksmíði og fjölga fagmönnum en á þeim hefur verið mikill skortur síðustu árin.

Í upphafi myndbandsins er kynnt fjögurra anna nám í grunndeildum málmiðna, sem fer fram í einum tíu iðn- og fjölbrautaskólum víða um land. Þá er sagt frá námi á 4. og 5. önn í hinni glæsilegu blikksmíðadeild Borgarholtsskóla í Reykjavík sem tók til starfa árið 2006. Þaðan er svo haldið í blikksmiðjur og á vinnustaði þar sem blikksmiðir eru að störfum.
Nýútskrifaður blikksmiður er sögumaður í myndinni og greinir áhorfendum frá ferli sínum frá skóla til útskriftar. Ennfremur er rætt við nokkra fagmenn úr greininni og viðskiptavini hennar. Úr verður heildstæð fræðsla sem einkum er miðuð við nemendur í efstu bekkjum grunnskóla sem þurfa að ákveða í hvaða nám og hvaða skóla þeir halda eftir útskrift.

Myndbandið verður notað í kynningum í efstu bekkjum grunnskóla en Félag blikksmiðjueigenda hefur tekið upp gott samstarf við Félag náms- og starfsráðgjafa um þessar kynningar. Félögin vona að með þeim opnist ungu fólki nýr heimur sem leiðir huga þeirra að því álitlega námi og starfi sem þessi tæknigrein býður upp á. Einnig er vakin athygli á því að útskrifaðir blikksmiðir geta haldið áfram námi í tækniskóla og þaðan í verkfræði ef áhugi er á því; engin blindgata og margir möguleikar í boði að loknu sveinsprófi.

Myndbandið er framleitt af nemendum á Lista- og fjölmiðlasviði Borgarholtsskóla undir leiðsögn Sigrúnar Harðardóttur kennara. Samtök iðnaðarins styrktu gerð myndarinnar með myndarlegu fjárframlagi. Að öðru leyti hefur Félag blikksmiðjueigenda staðið straum að þeim kostnaði sem ekki féll á Borgarholtsskóla.